Í síðustu kjarasamningum var samið um styttingu vinnuvikunnar bæði á almenna og opinbera vinnumarkaðnum. Leiðirnar sem samið var um eru með ýmsum hætti og víða eru flókin úrlausnarefni sem atvinnurekendur og starfsmenn þurfa að leysa til að koma styttingu vinnuvikunnar í framkvæmd.

Á opinbera markaðnum var víðast hvar samið um styttingu sem kemur til framkvæmda um næstu áramót. Gert er ráð fyrir að starfsmenn og stjórnendur komi sér saman um útfærslu bæði á styttingunni og því hvernig starfsmenn nýta hana, sem einnig getur verið með ýmsum hætti. Ætla má að opinberi markaðurinn sé víða kominn vel á veg með að útfæra þennan þátt kjarasamninga.

Á almenna markaðnum tók stytting vinnuvikunnar gildi um síðustu áramót hjá þeim sem vinna skv. samningi VR og SA.

Hjá verkafólki innan ASÍ þurfa starfsmenn á hverjum vinnustað að kjósa um það í atkvæðagreiðslu hvort hefja eigi viðræður við atvinnurekanda um styttingu vinnuvikunnar. Að henni lokinni er heimilt að semja um styttingu vinnutíma gegn niðurfellingu á kaffitímum. Þetta er gert á grundvelli 5. kafla kjarasamninga um svokallaðan fyrirtækjaþátt.

Hjá iðnaðarmönnum er svo enn önnur útfærsla þar sem tekinn var upp virkur vinnutími í apríl sl. og er hann nú 37 klst á viku, en greiðsla vegna neysluhléa var færð inn í mánaðarkaup. Jafnframt geta iðnaðarmenn kosið um það á hverjum vinnustað að hafnar skuli viðræður við atvinnurekanda um styttingu vinnuvikunnar með sama hætti og hjá verkafólki.

Hjá háskólamenntuðum starfsmönnum á almennum markaði hefur ekki verið samið um vinnutímastyttingu en engu að síður getur verið ástæða til að skoða stöðu þess hóps einnig með það í huga hvort vinnutímastytting eigi við og þá hvernig hún geti komið til framkvæmda.

Það eru eðlilega þó nokkrar væntingar hjá starfsmönnum tengdar styttingu vinnuvikunnar og stundum að einhverju leyti óraunhæfar væntingar sem atvinnurekendur eiga erfitt með að koma til móts við. Nefna má að á mörgum vinnustöðum hefur þegar komist á vinnufyrirkomulag þar sem starfsmenn skila í raun minni vinnu en áskilin er í kjarasamningum. Það er því ekki víst að starfsmenn hafi alls staðar rétt til að stytta vinnuvikuna ef horft er til þess sem samið var um í kjarasamningum. Full stytting miðar við að stytta fulla vinnuviku- oftast 40 stundir á viku.

Markmiðið með vinnutímastyttingu er meðal annars að bæta nýtingu vinnutíma og vinnustaðamenningu með það fyrir augum að stuðla að bættum lífskjörum og samræmingu vinnu og einkalífs. Til að svo megi verða er mikilvægt að vanda undirbúning að breytingum og taka mið af aðstæðum á hverjum vinnustað því hér hæfir ekki ein lausn fyrir alla.

Sérfræðingar Gott og Gilt hafa mikla reynslu og þekkingu af íslenskum vinnumarkaði og veita ráðgjöf sem gagnast við þá umbótavinnu sem stytting vinnuvikunnar kallar á innan vinnustaðarins. Gott og gilt getur leitt það samráð og aðstoðað stjórnendur og starfsfólk við að greina þau tækifæri sem geta falist í styttri vinnutíma og leiðir til að uppfylla markmið samningsaðila á vinnumarkaði.

Kristín Þóra Harðardóttir

Sérfræðingur hjá forsætisráðuneytinu og ráðgjafi Gott og gilt.

www.gottoggilt.is

www.linkedin.com/company/gottoggilt